Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar lagði leið sína í Árnes í Skeiða og Gnúpverjahreppi í gær og hélt það stuttan blaðamannafund þar sem hún sagði frá nýju verkefni Samfylkingarinnar, sem kallast “Krafa um árangur”. Orkumálin eru þar áberandi.
„Við erum að leggja hér fram töluleg markmið um fimm terawött, að við séum komin í ársframleiðslu, sem er í rauninni fjórðungsaukning eftir um það bil tíu ár og þetta byggjum við á í rauninni á mjög hóflegum forsendum,” segir Kristrún og bætir við.
„Fólkið í landinu vill hóflega leið. Við viljum standa undir fólksfjölgun, við viljum standa undir vexti hjá smærri fyrirtækjum en við viljum líka vera virkir þátttakendur í orkuskiptum upp að því marki sem það er mögulegt.”

Samfylkingin leggur líka mikla áherslu á samgöngumál í sínum nýju aðgerðum en Kristrún segir að það verði að verja um 20 milljörðum til viðbótar á ári til nýfjárfestinga og viðhalds á samgönguinnviðum landsins.
„Það er alveg augljós og það þekkja það allir að eigin reynslu að ástand samgönguinnviða er ekki gott. Þetta á ekki bara við vegina fyrir utan dreifbýlið, þetta á líka við inn í dreifbýli. Á höfuðborgarsvæðinu eru gríðarlegar umferðartafir og við leggjum þar áfram auðvitað áherslu á áframhaldandi fjármögnum samgöngusáttmálans,” sagði Kristrún Frostadóttir á blaðamannafundinum í Árnesi í Skeiða og Gnúpverjahreppi.
