Þetta kemur fram í nýbirtum úrskurðum nefndarinnar sem afgreiddir voru á föstudag. Nafnið Kaya var samþykkt sem ritháttarafbrigði nafnsins Kaja og Arianna sem ritháttarafbrigði nafnsins Aríanna.
Nefndin ákvað að hafna erindi um samþykkt nafnsins Libya. Í málinu reyndi á skilyrði laga um almennar ritreglur þar sem Libya er ekki ritað í samræmi við þær þar sem y er ekki ritað fyrir framan a í ósamsettum orðum. Þannig sé aðeins hægt að samþykkja það ef hefð er fyrir rithætti nafnsins. Svo er ekki þar sem enginn einstaklingur í skrám Þjóðskrá hefur borið nafnið. Erindinu var því hafnað.
Það reyndi á skilyrði hjá nefndinni þegar nafnið Jones var tekið fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá ber einn einstaklingur, sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna, eiginnafnið Jones. Sá er fæddur árið 2013.
Nafnið komi hins vegar ekki fyrir í manntölum frá 1703 til 1920 og telst því ekki hefð fyrir rithætti nafnsins á grundvelli vinnulagsreglnanna. Aftur á móti sé um enskt tökunafn að ræða og þessi ritháttur nafnsins gjaldgengur víða um heim. Taldi mannanafnanefnd því að hefð væri fyrir þessum rithætti nafnsins á grundvelli 4. gr. vinnulagsreglna nefndarinnar.