„Ferðadagurinn gekk þannig séð bara ljómandi vel. Ég þurfti að bíða eftir töskunum og kom beint af flugvellinum. Ég er bara ferskur.“
Af hverju var Janus mættur svo löngu á undan ykkur Ómari Inga?
„Út af því að hann var sniðugur og tók ekki með tösku. Ég þurfti að bíða aðeins eftir henni. Það er bara þannig,“ segir Gísli. Var hann með svo mikið dót með sér?
„Það er standard að koma með eitthvað að heiman og fara svo með yfir til Þýskalands og svona.“
Þá er gaman að koma heim á klakann.
„Það er alltaf jafn gaman að koma til Íslands og fínasta veður þegar maður lenti á flugvellinum, það er ekki oft sem það gerist. Maður er bara í ljómandi skapi,“ segir Gísli sem er í toppformi.
„Standið er gott, við erum á góðu róli í Magdeburg. Persónulega líður mér mjög vel og er bara klár slaginn.“
Magdeburg er komið á topp þýsku deildarinnar og getur unnið alla þrjá titla sem í boði eru. Stefnan er sett hátt, að venju.
„Það góða við þetta er að þetta er allt í okkar höndum. Við eigum leik til góða og einhverjir fimm leikir eftir. Ef við vinnum þrjá erum við meistarar, svo er gott að eiga Final four í Köln inni. Þetta er bara skemmtilegasti fasinn sem er eftir og hrikalega spenntur,“ segir Gísli sem er ekki síður spenntur fyrir landsliðsverkefninu gegn Eistum.
„Líka bara spenna fyrir þessari viku hérna. Það er alltaf gaman að koma í landsliðið og sýna hvað maður getur hérna. Við klárum þetta með stæl, vitum að við erum með betra lið en Eistarnir en við þurfum að svara fyrir ákveðin vonbrigði sem janúar var og koma með alvöru statement,“ segir Gísli. Er þetta skyldusigur?
„Já, mér finnst það. Ef þú berð saman okkar lið og þeirra er klárt mál að við eigum að klára þetta lið.“
Ísland og Eistland mætast í fyrri umspilsleiknum um sæti á HM í Laugardalshöll klukkan 19:30 í kvöld. Leiknum verður lýst beint á Vísi.