Í fréttum Stöðvar 2 var farið á Ljósmyndasafn Reykjavíkur við Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndir frá því í ágústmánuði 1924 birtust þeim gestum sem hlýddu á fyrirlestur Leifs Reynissonar í dag um þau tímamót í samgöngusögu Íslands þegar flugvélar flugu hingað í fyrsta sinn yfir úthafið.

„Ég á nú að heita sagnfræðingur en ég áttaði mig ekki á þessum viðburði fyrr en bara fyrir tilviljun á síðasta ári. Þessu hefur ekki verið mikið hampað í sögubókum og einhvern veginn hefur svona bara gleymst, held ég. Og full ástæða til þess að draga þetta fram og sérstaklega að nota tækifærið núna þegar þessi hundrað ár eru liðin,” segir Leifur Reynisson sagnfræðingur.
Flugvélarnar voru í hnattflugsleiðangri á vegum Bandaríkjahers og komu hingað frá Skotlandi. Fyrstu vélinni flaug hinn sænskættaði Erik Nelson og lenti hann á Hornafirði þann 2. ágúst áður en haldið var til Reykjavíkur þremur dögum síðar. Þetta var fimm árum eftir að fyrstu flugtilraunir voru gerðar á Íslandi árið 1919.

„Þetta var miklu viðaminna árið 1919, getum við sagt. Þetta voru stuttar vegalengdir sem farið var.
En 1924, þá var þetta stórviðburður. Því að það var flogið um haf langa vegalengd. Og við vorum hluti af heimsviðburði,” segir Leifur.

Það er skemmtileg tilviljun að við þessa sömu höfn, þar sem flugleiðangurinn í fyrsta hnattfluginu lenti fyrir eitthundrað árum, stendur núna yfir fjögurra daga ráðstefna Alþjóðasamtaka flugfélaga, IATA.
Þar eru samankomnir yfir sjöhunduð fulltrúar flugheimsins til að ræða um hvernig bæta megi afgreiðslu á flugvöllum. Framkvæmdastjóri IATA, Willie Walsh, segir til dæmis brýnt að bæta upplifun farþega í öryggisleit.

„Miklar tækniframfarir hafa orðið. Nýr skönnunarbúnaður gerir farþegum til dæmis kleift að skilja fartölvur og vökva í töskum sínum. Þetta hefur ekki verið tekið upp hjá öllum flugyfirvöldum á heimsvísu og er það afleitt.”
Willie Walsh stýrði áður British Airways og Air Lingus og hann dáist að því hvernig Íslendingum hefur tekist að gera Keflavík að tengimiðstöð.
„Flugið er afar mikilvægt fyrir tengjanleika og einnig fyrir efnahaginn. Þið hafið því umtalsvert forskot hér á Íslandi að því leyti að þið hafið gert Ísland að tengimiðstöð,” segir Willie Walsh, framkvæmdastjóri IATA.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: