„Kvikugangur getur farið að myndast, og í raun gerst hvenær sem er úr þessu. Þetta gerist með mismunandi hætti en við getum ekki gefið okkur neitt langan tíma í rýmingu, við miðum við klukkutíma frá því að atburðarás fer í gang þar til allir eiga að vera farnir. Þannig við erum að minna fólk á að vera tilbúið,“ segir Víðir í samtali við Vísi.
Greint var frá því í morgun að eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina, sem hófst þann 16. mars, sé nú lokið. Enn er kvikusöfnun í kvikuhólfi undir Svartsengi, eins og áður segir og því líklegt að annað kvikuhlaup hefjist áður en langt er um liðið.
„Við staðfestum það í morgun að þessu gosi væri lokið. En þetta virðist vera þannig að þegar við höldum að það sé kominn einhver taktur í þetta þá breytist eitthvað. Gosin á undan voru stutt og kröftug en svo kom þetta gos sem stóð í 54 daga. Þannig við vitum ekkert hverju við eigum von á næst. En fyrst er það að rýma til að geta metið stöðuna, síðan verður hægt að endurmeta það.“
Talið er að dvalið sé í 25 húsum í Grindavík.
„Það er lítil starfsemi í bænum. Í dag var auðvitað frídagur og svo var rafmagnslaust í bænum vegna breytinga á háspennulögninni. En við eigum von á því að starfsemi verði með eðlilegum hætti á morgun,“ segir Víðir.
„Náttúran fylgir engum tölum, hún gerir bara það sem hún gerir og við verðum að vera tilbúin að bregðast við. Allir eru tilbúnir, Grindvíkar í bænum, þeir sem eru með starfsemi í Svartsengi eru tilbúnir, lögregla og viðbragðsaðilar líka. Við sjáum bara hvað verður.“