Endalokum eldgossins við Sundhnúksgígaröðina sem hafði staðið yfir í 54 daga var lýst yfir í gærmorgun. Kvikusöfnun heldur þó áfram og því eru taldar auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og eldgosi á Reykjanesi. Eldgos gæti hafist með stuttum eða engum fyrirvara.
Auki skjálftavirkni hefur mælst eftir að eldgosinu lauk. Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár hjá Veðurstofunni, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að engin aflögun hafi mælst samfara skjálftavirkni á svæðinu í nótt. Þá hafi engar viðvaranir borist frá borholum sem hafi alltaf gefið fyrirvara fyrir eldgos til þessa. Líklega hafi orðið mjög lítið kvikuhlaup.
„Þetta er það mikið magn sem er núna til staðar. Þetta hefur engin áhrif og við mældum í rauninni ekkert sig við Svartsengi í tengslum við þennan minniháttar atburð,“ sagði hún.
Kristín sagði að vel gæti komið til rýminga í Grindavík á næstunni eins og Víðir Reynisson frá almannavörnum hefur sagt. Enginn viti þó hvað gerist næst.
„Við erum með þessar sömu aðstæður og hafa verið á milli gosa. Við erum með töluvert magn af kviku í Svartsengi og það heldur áfram að safnast saman. Við vitum líka að það þarf alltaf meiri og meiri þrýsting til þess að koma af stað næsta kvikuhlaupi. Það er eitthvað sem við lærðum frá Kröflu,“ sagði Kristín og vísaði til Kröfluelda sem stóðu yfir í tæpan áratug á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
„Þetta gætu alveg orðið einhverjar vikur,“ sagði Kristín um hvenær næsta gos gæti hafist.