Áður var talað um að upptaka af framkomu Klein á fimmtudaginn yrði spiluð í kvöld en nú segja forsvarsmenn Sambands evróskra sjónvarpsstöðva (EBU) að Hollendingar verði ekki með í keppninni að svo stöddu.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Í yfirlýsingu frá EBU segir að kona sem vinnur við söngvakeppnina hafi kvartað yfir Klein í kjölfar þess að hann flutti lag sitt Europapa á fimmtudagskvöldið. Kvörtunin, sem sögð er snúast um „hótanir“ er til rannsóknar hjá lögreglu í Svíþjóð og var Klein yfirheyrður í gær.
Í yfirlýsingunni segir að enginn annar tónlistarmaður komi að þessu atviki.
Þar segir einnig að engin „óviðeigandi hegðun“ sé liðin þegar kemur að Eurovision. Hegðun Klein hafi verið metin sem brot á reglum keppninnar.
Klein fékk ekki að taka þátt í æfingum á Eurovision í gær og voru einu útskýringar EBU þær að það væri vegna „atviks“ frá því á fimmtudaginn. Fjölmiðlar í Svíþjóð og Hollandi sögðu frá því í morgun að lögreglan hefði „ólöglegar hótanir“ í garð starfsmann söngvakeppninnar til rannsóknar.
Málið væri komið á borð saksóknara í Svíþjóð og þeirra væri að ákveða hvort hann yrði ákærður. Það gæti tekið saksóknarar nokkrar vikur að taka þá ákvörðun.
Hollenski miðillinn NOS hefur eftir forsvarsmönnum NPO, sambands ríkisrekinna sjónvarpsstöðva Hollands, að ákvörðunin sé mikil vonbrigði fyrir milljónir aðdáenda Eurovision í Hollandi og víðar í Evrópu. Farið verði ítarlega í saumana á atvikinu og ákvörðuninni.
Forsvarsmenn AVROTROS, ríkisrekinnar stöðvar sem er aðili að NPO, segja ákvörðunina ekki vera í samræmi við hið meinta brot en lítið er vitað um það.
We hebben kennis genomen van de diskwalificatie door de EBU. @AVROTROS vindt de diskwalificatie disproportioneel en is geschokt door de beslissing. We betreuren het enorm en komen er later inhoudelijk op terug. #eurovision2024 #europapa #joostklein pic.twitter.com/OBBLl2mU5x
— Songfestival (@songfestival) May 11, 2024