Nú hafa nöfnin Freysi og Klaki verið samþykkt. Bæði eru karlkyns eiginnöfn. Öðru karlmannseiginnafni var hins vegar hafnað. Fólk má ekki heita Hroði.
Í úrskurði nefndarinnar segir að nafnið brjóti ekki í bága við íslenskt málkerfi og sé í samræmi við íslenskar ritreglur. Nafninu var hafnað þar sem það geti orðið nafnbera þess til ama.
Vísað er íslenska orðsifjabók í úrskurðinum:
- Hrotti, rudd;, ruddaskapur; árvöxtur, brimsúgur, ruddaveður, †óró, erjur, deila, vindsheiti
- Uppgangur eða slím í lungum eða öðrum öndunarfærum
- Rusl, úrgangur, óþverri.
Þar af leiðandi segir nefndin að Hroði hafi neikvæða og óvirðulega merkingu.
„Það hefur einnig mjög óvirðulega merkingu í skyldum orðum eins og hroðalegur, hroðamenni og hroðaverk.“
Þess má geta að í byrjun mánaðar samþykkti mannanafnanefnd einnig kvenkyns eiginnanfið Lóla.