Hvernig líst þér á nýkjörinn forseta?
„Frábærlega, ég kaus Höllu,“ segir Gunnar Ellert Peiser. Hann segir að úrslitin hafi ekki komið honum á óvart, Halla hafi verið með þetta allan daginn.

Ungu mennirnir Óskar Gísli og Baldur eru ekki eins ánægðir. Óskar segir að Jón Gnarr hefði átt að vinna. „Hann er algjört legend skilurðu. Hann hefði átt að rústa þessu,“ sagði Óskar. Baldur félagi hans skaut því svo inn í að hann hefði skilað auðu. Óskar ítrekaði svo að hann væri alls ekki sáttur, Jón hefði átt að vinna.

Bergdís Ívarsdóttir fylgdist mikið með kosningabaráttunni og var ánægð með Höllu Tómasdóttur.
Eru einhverjir eiginleikar sem að þú vilt sjá í nýjum forseta þegar hann tekur við?
„Bara þennan styrkleika sem að Halla sýnir,“ sagði Bergdís.

Ingibjörg og Þórdís fylgdust mjög vel með kosningasjónvarpinu í gærkvöldi, og fóru seint að sofa. „Mamma og pabbi voru til sko hálf þrjú að horfa á þetta, í allt kvöld,“ sagði önnur. Hin sagði svo að hún hefði horft til klukkan tvö á sjónvarpið. Þeim líst bara vel á nýja forsetann.

Kristjáni og Sigurði Agli líst vel á það að kona verði næsti forseti. „Mér finnst bara fínt að fá bæði kynin sem forseta, ekki að það séu bara kallaforsetar, það er bara fínt að hafa bæði kynin,“ sagði Sigurður.

Elín Margrét ræddi við fleiri viðmælendur í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 í kvöld: