„Ég sé ekki fyrir mér að orðið geti af hvalveiðum í sumar, enda er tíminn á milli vertíða notaður til undirbúnings veiða næsta árs. Flest fólk skilur þetta, en ekki þessir ráðherrar Vinstri grænna,“ segir Kristján í samtali við Morgunblaðið. Fréttastofa reyndi að ná í Kristján í gær en án árangurs.
Í gær var tilkynnt að matvælaráðherra hefði veitt leyfi til veiða á langreyðum á þessu ári. Leyfilegt veiðimagn er 99 dýr á svæðinu Grænland/Vestur-Ísland og 29 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar eða samtals 128 dýr.
Kristján segir að fyrir hvalveiðar þurfi að ráða vant fólk til vinnu og útvega alls kyns rekstrarvörur „Ef fyrirsjáanleikinn er ekki til staðar er þetta vonlaust.“
„Þetta leyfi er gefið út í 204 daga. Ef ráðherrann vill drepa atvinnurekstur er þetta leiðin til þess. Fyrirsjáanleikinn er enginn og að halda að það sé hægt að setja í gang svona rekstur með engum fyrirvara er með ólíkindum.“
Kristján vill meina að það hafi verið áætlun Vinstri grænna að gera hvalveiðimönnum erfitt fyrir.
„Það er augljóst að þarna hefur fólk verið að leika sér, það þykist hafa legið undir einhverjum feldi og er nú allt í einu komið undan honum. Þetta er fyrirframskrifað plan hjá þessu fólki, Bjarkeyju, Katrínu Jakobsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur,“ segir hann.
„Þær hafa allar komið að málinu síðan umsóknin var send inn. Þetta hefur verið lögleg atvinnustarfsemi allan tímann, allt frá árinu 1948.“