Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg. Björgunarskipið Hafbjörg í Neskaupstað var kallað út klukkan hálf fimm í nótt vegna skipverja á fiskibát sem hafði slasast á fæti og var ekki í ástandi til að sigla bátnum til hafnar.
Maðurinn hífður upp í þyrlu
Sjúkraflutningamaður var um borð í björgunarskipinu en þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út. Hafbjörg var komin að bátnum rétt fyrir klukkan sex í morgun en einn úr áhöfn skipsins tók þá við stjórn fiskibátsins á meðan hlúið var að skipverjanum sem var hífður um borð í þyrluna um klukkan sjö í morgun.
„Hafbjörg og fiskibáturinn tóku þá stefnuna til Neskaupstaðar en TF Eir flaug til Egilsstaða þar sem tekið var eldsneyti. Þyrlan flaug svo áfram með sjúklinginn til Reykjavíkur til aðhlynningar,“ segir í tilkynningunni.
Fiskibáturinn togaður í höfn
Klukkan hálf sjö í morgun var björgunarskipið Vörður II á Patreksfirði kallað út vegna fiskibáts sem hafði fengið rekalda í skrúfu bátsins og gat þar af leiðandi ekki haldið áfram veiðum.
Fiskibáturinn var staddur í mynni Patreksfjarðar en vel gekk að koma taug á milli skipanna. „Vörður II tók stefnuna inn til Patreksfjarðar með bátinn í togi og kom inn til hafnar nú rétt upp úr klukkan níu.“

Fiskibátur missti stýri
Um tvö leitið í nótt var björgunarsveitin Bára á Djúpavogi jafnframt kölluð út vegna fiskibáts sem hafði misst stýri rétt austur af Papey. Björgunarstarf gekk vel en björgunarsveitin tók bátin í tog og voru komin að bryggju um hálf fimm í nótt.
„Þetta var annað útkall Báru á stuttum tíma því seinni partinn í gær var sveitin einnig kölluð út vegna einstaklings sem hafði fallið á reiðhjóli og handleggsbrotnað inn í Hamarsdal. Björgunarfólk fór ásamt sjúkraflutningum og flutti viðkomandi fram dalinn og í sjúkrabíl.“