Þjóðverjar unnu leikinn í Dortmund, 2-0, en frammistaða ensku dómaranna var mikið til umræðu eftir leikinn.
Joachim Andersen hélt að hann hefði komið Danmörku yfir í upphafi seinni hálfleiks. Markið var hins vegar dæmt af eftir skoðun á myndbandi þar sem Thomas Delaney var hársbreidd fyrir innan.
Nánast í næstu sókn var vítaspyrna dæmd á Andersen eftir að hann fékk boltann í höndina innan teigs. Kai Havertz tók spyrnuna og skoraði. Jamal Musiala bætti svo öðru marki við og Þjóðverjar því komnir í átta liða úrslit.
Eftir leikinn gagnrýndi Kasper Hjulmand, þjálfari danska liðsins, dómarann Michael Oliver og VAR-teymið og sagði að reglan um hendi í fótbolta væri fáránleg.
Christian Nørgaard, miðjumaður danska liðsins, tók undir með þjálfara sínum þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir leikinn.
„Michael hefur dæmt nokkrum sinnum hjá mér í ensku úrvalsdeildinni og ég hef alltaf talið hann mjög góðan dómara en ég held að jafnvel hann sjálfur myndi viðurkenna að frammistaðan í dag [í gær] var vafasöm,“ sagði Nørgaard.
„Ég skil það, við leikmenn spilum stundum ekki vel. En í dag [í gær] var eins og hann væri að bæta upp fyrir mistök með öðrum mistökum, svo öðrum mistökum. Þetta var gegnumgangandi í leiknum.“
Nørgaard leikur með Brentford í ensku úrvalsdeildinni. Hann kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik í leiknum gegn Þýskalandi í gær.