Günok kastaði sér með tilþrifum til hliðar og varði skalla Christoph Baumgartner af stuttu færi, í lok leiks gegn Austurríki í 16-liða úrslitum EM í fyrrakvöld. Þar með unnu Tyrkir 2-1 sigur og komust áfram í 8-liða úrslit, þar sem þeir mæta Hollendingum en þurfa þó að spjara sig án miðvarðarins Merih Demiral sem verður í banni.
Tilþrif Günoks vöktu mikla athygli og tyrkneska blaðið Hurriyet spurði Mahir pabba hans út í þau, en hann er fyrrverandi markvörður og þjálfari.
„Líkamsstaða sonar míns og frammistaða á lokasekúndunum gerði mig mjög glaðan. Kannski voru það bænir allra stuðningsmannanna, þar á meðal mínar, sem komu í veg fyrir að þetta yrði mark,“ sagði Mahir.
Sonurinn Mert var einnig þakklátur fyrir bænir stuðningsmanna:
„Þetta var frábær sigur. Ég vil þakka öllum sem báðu fyrir okkur. Við eigum enn langa leið fyrir höndum,“ sagði Mert Günok.
Leikur Tyrklands og Hollands er í Berlín á laugardaginn en þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2008 sem að Tyrkir komast svona langt á EM.
„Ég held að með þessum mikla anda samtakamáttar og einingar þá munum við komast yfir hollensku hindrunina,“ sagði Günok eldri.