Víkingar fóru til Írlands í gær og töpuðu þar 2-1 fyrir Shamrock Rovers eftir að gera markalaust jafntefli í Víkinni. Egnatia tók á móti Borac Banja Luka í kvöld og var 1-0 undir eftir dramatískt sigurmark gestanna í fyrri leik liðanna.
Leikur kvöldsins var engu minna dramatískur en heimamenn í Egnatia unnu á endanum 2-1 sigur og því þurfti að framlengja. Þar sem ekkert var skorað í framlengingunni þurfti að útkljá einvígið í vítaspyrnukeppni.
Þar reyndust gestirnir frá Bosníu sterkari og fara því áfram í næstu umferð Meistaradeildar Evrópu. Á sama tíma er Egnatia úr leik og fellur niður í Sambandsdeildina þar sem þeir mæta Íslands- og bikarmeisturum Víkings.
KF Egnatia varð albanskur meistari á síðustu leiktíð en það var í fyrsta sinn sem félagið vinnur þann titil. Liðið datt úr á móti armenska félaginu Ararat-Armenia í fyrstu umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra.
Það verður annað einvígi liða frá Íslandi og Albaníu en annað kvöld mætast Valur og Vllaznia Shkodër í annað sinn eftir að gera 2-2 jafntefli á Hlíðarenda í leik þar sem allt sauð upp úr.
Leikirnir í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu fara fram 25. júlí og 1. ágúst.