Bjarni segir fylgið hafa verið óviðunandi í nokkurt skeið og að við því þurfi að bregðast.
„Og við munum gera það í aðdraganda kosninga með því að skerpa á skilaboðunum um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir og vill gera fyrir samfélagið,“ segir Bjarni.
Óánægjufylgi stjórnarandstöðunnar
Hann segir dvínandi fylgi megi frekar rekja til verðbólgumælinga og hárra vaxta heldur en málflutnings stjórnarandstöðunnar og telur að stöðunni megi snúa við fyrir komandi kosningar.
„Auðvitað tökum við Sjálfstæðismenn þessu alvarlega. Mælingar eitt prósent til og frá eru ekki að færa mér nein stórtíðindi, fylgið hefur einfaldlega verið lágt. Svo er það bara þetta að það er mjög takmarkað sem mælingar löngu fyrir kosningar hafa forspárgildi fyrir kosningarnar og úr þeirri staðreynd ætlum við að spila,“ segir Bjarni.
Bjarni dregur þá ályktun af niðurstöðum skoðanakannana að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé að dreifast á marga flokka vegna óánægju með störf ríkisstjórnarinnar.
„Það er til að æra óstöðugan ef menn ætla að stjórna landinu eftir því sem vindar blása að hverju sinni. Við erum hér að störfum. Við fengum sterkt umboð í síðustu kosningum. við þurfum að einbeita okkur að þeim verkefnum sem eru og fara síðan í djúpt samtal við kjósendur í aðdraganda kosninga. Í millitíðinni geta skoðanakannanir sveiflast til og frá eins og þær hafa alltaf gert og þær geta ekki sett okkur út af sporinu,“ segir hann.
Fjölskyldumálin efst á baugi ríkisstjórnar
Bjarni segir áherslu verða lagða í haust á mál í stjórnarsáttmálanum sem fylgja þurfi eftir. Samgönguáætlun dagaði uppi í vor sem verður á dagskrá í haust. Þá verða fjárlög og svo undirbúningur fyrir fjármálaáætlun til næstu ára.
„Þetta skiptir gríðarlegu máli í efnahagslega samhenginu,“ segir Bjarni.
Þá segir hann stöðuna á húsnæðismarkaði ekki vera nægilega góða og að fylgja þurfi eftir verkefnum sem snerta húsnæðisuppbyggingu til að sporna við áframhaldandi hækkun á íbúðaverði og hækkandi þröskuldi fyrir ungu kynslóðirnar inn á húsnæðismarkað. Bjarni segist einnig vera umhugað um aðgerðir vegna stöðunnar í menntamálum.
„Fjölskyldumálin heilt yfir eru verkefni sem ríkisstjórnin er að vinna á hinum ýmsa vettvangi í ólíkum ráðuneytum og verða augljóslega verkefni til þess að vinna úr í vetur,“ segir hann að lokum.