Tilgangur fundarins var að ræða hvort Imane Khelif og Lin Yu-ting ættu afturgengt í keppnir á vegum Alþjóðahnefaleikasambandsins (IBA) en þær eru báðar bannaðar eftir að hafa fallið á kynjaprófi. IBA stendur fyrir, en greinir ekki frá framkvæmd prófsins og óvíst er hvaða skilyrði það eru sem þær uppfylla ekki.
IBA var ekki heimilað að koma að skipulagningu hnefaleikakeppninnar á Ólympíuleikunum sökum slæmra stjórnarhátta og Ólympíusambandið hefur harðlega gagnrýnt ákvörðunina að útiloka Imane Khelif og Lin Yu-ting frá keppni.
Fundinum í gær er lýst sem þeim allra furðulegasta í skýrslu Sky Sports. Hann hófst klukkutíma of seint og endalausir tæknilegir örðugleikar gerðu erfitt fyrir. Skipulag var lítið, sífellt gripið fram í og spurningar öskraðar yfir salinn.
🎥 IBA president Umar Kremlev:
— Algeria FC (@Algeria_FC) August 5, 2024
“We did not verify what they had between their legs .. we don’t know whether they were born like that or changed something.”
IBA 🤡🤡 pic.twitter.com/uLPbBnGLiW
Fjöldi blaðamanna yfirgaf fundinn með óbragð í munninum eftir að hafa hlustað á Umar Kremlev, umdeildan forseta IBA, taka til máls.
Hann flutti þrumuræðu um forseta Ólympíusambandsins, Thomas Bach, um opnunarhátíðina og vanvirðingu skipuleggjenda gagnvart kristinni trú. Hann kallaði sjálfan sig verndara kvenna og sagðist aðeins hugsa um heilindi íþróttarinnar.
Eins og áður segir var fundarefnið málefni kvennanna tveggja og í fundarboði stóð að það ætti að útskýra hvers vegna þær mættu ekki taka þátt. Engin almennileg útskýring var gefin fyrir því.
IBA sagðist hafa framkvæmt blóðrannsóknir, en aftur var ekki skilgreint hvernig sú rannsókn var framkvæmd eða hvaða skilyrði þær uppfylltu ekki.
Fundinum lauk þegar vinkona Imane Khelif og kollegi hennar, Roumaysa Boualam, braust inn og truflaði fundinn með ræðu um Khelif. Þar sagðist hún hafa þekkt Khelif síðan hún var lítil stelpa, hún hafi fæðst sem stelpa og alist þannig upp, hún hefði fullan rétt á því að taka þátt.
Samantekt Sky Sports af fundinum og atvikið þegar Roumaysa réðst inn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.