Í sumar ætlum við að kynnast nokkrum af þeim fjölda spennandi golfvalla sem hægt er að finna víða um land og gaman væri að prófa í sumarfríinu en hægt er að leika golf á yfir 60 völlum hér á landi. Golfvöllurinn á Hellishólum er golfvöllur vikunnar á Vísi.
„Landslagið hér er einstakt og nálægðin við náttúruna er eitthvað sem ekki er hægt að lýsa,“ segir Víðir Jóhannsson, eigandi golfvallarins.

„Það eru fyrst og fremst Íslendingar sem spila hér, bæði heimamenn og ferðamenn, en svo er líka þó nokkuð af útlendingum sem spila hér, þá helst gestir Hellishóla.“

Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil uppbygging tengd ferðaþjónustu á svæðinu. „Í dag má m.a. finna hér 36 herbergja hótel auk 24 sumarhúsa. Við bjóðum líka upp á veislusal sem rúmar 130 manns, tvö baðhús, hér er gott leiksvæði fyrir börn, vatn til að veiða í og gott tjaldsvæði en þar eru rúmlega 80 hjólhýsi með fasta setu en einnig er nóg pláss fyrir fólk sem vill tjalda.“
