Í dag mætast Frakkland og Noregur í úrslitum í handboltakeppni kvenna á Ólympíuleikunum. Fyrirliði norska liðsins er Stine Oftedal.
Kærasti hennar er þýski landsliðsmaðurinn Rune Dahmke en Þýskaland tryggði sér sæti í úrslitaleiknum karlamegin með sigri á Spáni í gær, 25-24.
Oftedal og Dahmke spila því bæði til úrslita á Ólympíuleikunum um helgina og freista þess að koma bæði heim frá París með gullmedalíu í farteskinu.
Þess má geta að Oftedal og Dahmke eru bæði þjálfuð af Íslendingum. Þórir Hergeirsson er þjálfari norska kvennalandsliðsins og Alfreð Gíslason þjálfar þýska karlalandsliðið.
Úrslitaleikur Noregs og Frakklands í kvennaflokki hefst klukkan 13:00 í dag. Úrslitaleikurinn í karlaflokki, milli Þýskalands og Danmerkur, hefst klukkan 11:30 á morgun.