Þetta eru önnur gullverðlaun Danmerkur í karlaflokki í handbolta en danska liðið varð Ólympíumeistari undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar fyrir átta árum í Ríó.
Mathias Gidsel átti stórkostlegan leik og skoraði ellefu mörk fyrir danska liðið í dag. Magnus Landin skoraði sjö, Simon Pytlick sex og Rasmus Lauge fimm.
Niklas Landin varði ellefu skot í kveðjuleik sínum með landsliðinu. Þá skoraði Mikkel Hansen tvö mörk í síðasta leik sínum á ferlinum.
Danir höfðu ótrúlega yfirburði í úrslitaleiknum eins og lokatölurnar bera með sér. Eftir að Þjóðverjar minnkuðu muninn í eitt mark, 5-6, skoruðu Danir sex mörk í röð og komust sjö mörkum yfir, 5-12.
Danska liðið komst tíu mörkum yfir í fyrsta sinn, 9-19, og leiddi svo með níu mörkum í hálfleik, 12-21. Þýsku leikmennirnir töpuðu boltanum átta sinnum í fyrri hálfleik og dönsku heimsmeistararnir refsuðu hvað eftir annað.
Danir gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik og Nikolaj Jacobsen, þjálfari þeirra, spilaði á sínu sterkasta liði nánast allan tímann. Þegar uppi var staðið munaði þrettán mörkum á liðunum, 26-39.
Juri Knorr skoraði sex mörk fyrir þýska liðið sem hljóp á vegg í dag eftir frábæra frammistöðu á Ólympíuleikunum.