Atalanta hefur undanfarin ár verið með skemmtilegri liðum Serie A og á því virðist engin breyting ætla að verða á. Liðið sótti Lecce heim í kvöld og vann 4-0 stórsigur. Athygli vekur að Ademola Lookman, hetja liðsins í sigrinum á Bayer Leverkusen í úrslitum Evrópudeildarinnar í vor, var ekki með í kvöld þar sem hann er orðaður við stórlið París Saint-Germain.
Í fjarveru Lookmans þá stigu Marco Brescianini og Mateo Retegui upp. Báðir skoruðu tvö mörk í gríðarlega þægilegum sigri gestanna.
Á sama tíma fór Juventus illa með nýliða Como sem voru hrent út sagt engin fyrirstaða. Lokatölur 3-0 en sigurinn hefði getað verið stærri þar sem mark var dæmt af Dušan Vlahović í síðari hálfleik þegar staðan var orðin 2-0.
Þar áður hafði hinn tvítugi Samuel Mbangula komið heimamönnum yfir og Timothy Weah tvöfaldaði forystuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Það var svo í uppbótartíma síðari hálfleiks sem Andrea Cambiaso skoraði eftir sendingu Mbangula, lokatölur 3-0 og Thiago Motta byrjar veru sína hjá Juventus á sigri.
Í spænsku úrvalsdeildinni gerðu Villareal og Atl. Madríd jafntefli þar sem öll fjögur mörkin komu í fyrri hálfleik, lokatölur 2-2.
Arnaut Danjuma kom Villareal yfir, Marcos Llorente jafnaði metin áður en Koke varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og heimaliðið komið 2-1 yfir. Það var svo þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik sem Alexander Sørloth jafnaði metin.
Staðan 2-2 í hálfleik og þar sem ekkert var skorað í síðari hálfleik þá reyndust það lokatölur.