Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni í gærkvöldi er það fimmta á þessu ári og það sjötta á rúmum átta mánuðum. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að gosið nú hegðaði sér eins og fyrri gos. Það hefði byrjað af miklum krafti og hraunið sé núna að minnsta kosti jafnstórt og í síðasta gosi sem lauk í maí.
Verulega hefur fjarað undan gosinu. Magnús Tumi sagði að rennslið hafi verið um tvö þúsund rúmmetrar á sekúndu í fyrstu en nú sé það á bilinu fimmtíu til hundrað rúmmetrar. Til samanburðar nefndi hann að rennsli í Þjórsá væri um fjögur hundruð rúmmetrar á sekúndu.
„Við vitum ekki hvort það muni slokkna á þessu hratt eða hvort að þetta fer í sísrennsli eins og hin gosin tvö sem á undan hafa komið,“ sagði hann.
Gæti komið áratugalangt hlé
Landris hófst aftur áður en gosi lauk í síðustu tveimur eldgosum á Reykjanesi. Magnús Tumi sagði að engin þreytumerki sæjust ennþá á virkninni þótt nú nálgist tíu mánuðir frá því að hrina tíðra eldgosa hófst. Ekki sjái enn fyrir endann á þessum atburðum.
Ef tekið væri mið af síðasta þekkta gostímabili á Reykjanesskaga fyrir um átta hundruð árum og hversu mikið magn hrauns kom upp þá mætti ætla að töluvert af kviku eigi enn eftir að koma upp.
„En hvort að það gerist á næstu mánuðum eða hvort það koma hlé og svo gerist það á næstu árum er ómögulegt að segja,“ sagði jarðvísindamaðurinn.
Að því loknu mætti reikna með hléi sem stæði yfir í áratugi þess vegna.
„Þetta verður ekki þannig að hér verði stöðug gos á nokkurra mánaða fresti í áratugi. Þannig er skaginn ekki,“ sagði Magnús Tumi.
Til að setja virknina í samhengi sagði Magnús Tumi að magn kviku sem hefði komið upp á Reykjanesskaga á þrjú hundruð árum væri jafnt því sem kom upp í Holuhraunsgosinu á sex mánuðum fyrir að verða tíu árum.