Eins og áður hefur komið fram virðast viðræðurnar stranda á kröfu Ísraelsmanna um áframhaldandi viðveru hersins við landamæri Gasa og Egyptalands, sem spanna 14,5 kílómetra.
Milligögnuaðilar eru sagðir hafa lagt fram ýmsar tillögur að málamiðlun hvað þetta varðar en bæði Ísrael og Hamas eru sögð hafa hafnað þeim.
Jake Sullivan, ráðgjafi Bandaríkjaforseta í þjóðaröryggismálum, sagði á blaðamannafundi í Kanada að stjórnvöld vestanhafs væru enn að vinna að því að knýja fram niðurstöðu í Kaíró, þar sem viðræðurnar fóru fram í liðinni viku.
Auk Bandaríkjanna ættu yfirvöld í Egyptalandi og Katar aðkomu að vinnunni auk fulltrúa Ísrael.
Ísraelsmenn og Hezbollah-samtökin stóðu að umfangsmiklum loftárásum um helgina. Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, sagði í gær að árangur árásanna yrði metinn og ráðist í frekari aðgerðir ef hann yrði ekki talinn nægjanleg hefnd fyrir drápið á Fuad Shukr í Beirút.
Leiðtogar í Mið-Austurlöndum hafa varað við allsherjarstríði á svæðinu en Ísraelsmenn bíða enn hefndaraðgerða af hálfu Íran eftir að Ismail Haniyeh, pólitískur leiðtogi Hamas, var ráðinn af dögum í Tehran í júlí.
Abbas Araqchi, utanríkisráðherra Íran, sagði í samtali við utanríkisráðherra Ítaliu um helgina að „svar“ Írana yrði útreiknað og afdráttarlaust.