Hátt í fimmtíu skólabörn veiktust í skála FÍ í Emstrum í síðustu viku og þurftu liðsinni björgunarsveita á Suðurlandi til að komast aftur til byggða.
Fram kemur í frétt Morgunblaðsins í morgun að Útivist, félagið sem rekur gistiskálann í Básum á Goðalandi þar sem fólk veiktist einnig, hafi frestað komu hóps í smátíma til að ljúka þrifum og sótthreinsun skálans.
Upp hafa komið nokkur hópsmit magakveisu meðal ferðamanna á undanförnum vikum en samkvæmt frétt Morgunblaðsins hefur enginn þurft að leita á sjúkrahús í þessum tilfellum.
Ólíklegt er talið að smitin megi rekja í vatnsból við skálana, en vatnsbólið í Emstrum er ekki yfirborðsvatn heldur eru þar uppsprettulindir.