Bergþór Guðmundsson, eftirlaunaþegi og Skagamaður, er á ferð um Króatíu í siglinga- og hjólaferð með vinahópi sínum af Akranesi. Þeir hafa siglt á milli eyja við Króatíu og hjólað þar um.
„Eftir hjólaferðina í dag ákváðum við að fara í sjóinn að synda. Ég áttaði mig ekki á því að síminn væri í sundbuxunum og þess vegna fór hann í sjóinn. Við vorum búnir að leita út um allt og hann fannst ekki,“ segir Bergþór sem var þá búinn að gefa símann upp á bátinn.
Áttaði sig á því að síminn væri íslenskur
Skömmu síðar var mynd af símanum allt í einu komin í dreifingu víða á Facebook og byrjaði skilaboðunum til Bergþórs að rigna inn.
„Það var nefnilega þannig að pabbi stelpunnar sem fann símann setti mynd af símanum inn á króatískan Facebook-hóp. Króati á Íslandi sá það og dreifði myndinni á fjölda íslenskra síðna,“ segir Bergþór.
Var eitthvað sem benti til þess að síminn væri íslenskur?
„Það stóð nefnilega á skjánum miðvikudagur 4. september og hann áttaði sig á því að þetta væri íslenskur sími,“ segir Bergþór.
Fann símann í sjónum
En það var ekki hjálpsemi Króatans á Íslandi sem varð til þess að síminn fannst. Stutt símtal kom honum í leitirnar.
Hvernig endurheimtirðu símann?
„Við vorum komin um borð í skipið okkar og ströndin er kannski 800 metra frá. Við höfðum gengið til baka eftir að hafa leitað af okkur allan grun. Við vorum búin að prófa að hringja í símann en það kom ekkert svar þannig við reiknuðum ekkert með því að fá hann aftur,“ segir Bergþór.
„En þegar um borð var komið prófuðum við að hringja aftur en þá svaraði þessi maður og ég fór og náði í símann,“ segir Bergþór.
Dóttir mannsins sem svaraði hafði þá fundið símann þegar hún var að leika sér í sjónum. Stúlkan fékk að launum lítinn þakklætisvott frá kampakátum Bergþóri.
Ekki nóg með að símann hafði bjargast úr sjónum heldur kom það Bergþóri sérstaklega á óvart að það sá ekki á honum. Þannig fór um sjóferð þá.