Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við Vísi. Bálhvasst hefur verið á Norðvesturlandi og á Vestfjörðum í dag og björgunarsveitum á svæðinu hafa borist fjölmargar tilkynningar.
Í morgun var greint frá því að á Ísafirði hafi lítil skúta slitnað frá bryggju og rekið upp í grjótgarðinn við Pollinn.
Jón Þór segir að á milli klukkan 14 og 15 hafi tvær skútur til viðbótar losnað frá bryggju og enn hafi ekki verið hægt að koma þeim í tog vegna illviðris. Björgunarsveitir frá Ísafirði, Bolungarvík, Hnífsdal og Súðavík hafi verið kallaðar út vegna veðursins. Björgunarsveitarmenn hafi meðal annars unnið að því að koma bátum á land úr svokallaðri Sjóferðahöfn suðaustanmegin á tanganum.

Þá hafi áhöfn Kobba Láka, björgunarbáts úr Bolungarvík, farið suður í Vigur til þess að sækja bát sem leit út fyrir að vera að sökkva við bryggju. Báturinn sé kominn í tog og á leið til Súðavíkur.
Áttu myndefni frá vonskuveðrinu á Vestfjörðum? Sendu okkur á ritstjorn@visir.is.
Að neðan má sjá myndefni frá Hólmavík sem Elías Svavar Kristinsson tók. Þar má segja að fallegur regnbogi sé ljósið í myrkrinu.