Það var maður að nafni Dale Carpenter sem tók myndbandið upp á átta millimetra filmu. Hann er sagður hafa geymt myndbandið í íláti úr málmi merktu „JFK launmorðið“. Einn sonur hans, sem er í dag 63 ára gamall, sagði við New York Times að faðir hans hefði sjaldan sýnt öðrum myndefnið, líklega vegna óhugnanlegs viðfangs þess.
Myndbandið er raun í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn var tekinn fyrir morðið þegar bílalest Kennedy fer um miðbæ Dallas. Þar virðist Carpenter rétt svo missa af forsetanum en nær að taka upp hluta bílalestarinnar. Seinni hlutinn er tekinn eftir morðið en þá hafði Carpenter fært sig, líklega í von um að ná að mynda forsetann, en þá sést bílalestin bruna fram hjá honum þegar var verið að flytja Kennedy á sjúkrahús.
„Ljósmyndir og kvikmyndir sem þessar er oft á tíðum enn þarna úti. Það er enn verið að uppgötva eða enduruppgötva efni sem þetta í kjöllurum og bílskúrum,“ segir Stephen Fagin, safnstjóri Sixth Floor-safnsins, sem er staðsett í húsnæðinu þar sem Lee Harvey Oswald framdi launmorðið á Kennedy.
Myndefnið verður boðið upp 28. september næstkomandi. Uppboðshaldarinn hefur í gegnum tíðina annast uppboð á munum sem tengjast tilræðinu með einum eða öðrum hætti, líkt og giftingarhring Oswald.