Heilbrigðisráðuneyti Líbanon segir að minnsta kosti níu látna og þrjú hundrað særða eftir nýjustu sprengingarnar.
Óljóst er hve margar sprengingar hafa orðið en svo virðist sem þær séu mun færri en þær voru í gær, þegar hundruð ef ekki þúsundir símboða sem notaðir voru af Hezbollah-liðum sprungu samstundis víðsvegar um Líbanon og í Sýrlandi.
Símboðarnir sem sprungu í gær munu hafa verið framleiddir af skúffufélagi sem skráð er með höfuðstöðvar í Ungverjalandi.
Sjá einnig: Símboðarnir sagðir koma frá ungversku skúffufélagi
Yfirvöld í Ungverjalandi segja að umrætt skúffufélag sé ekkert meira en það. Skúffufélag sem hafi enga framleiðslu í Ungverjalandi og sé einungis skráð þar. Í yfirlýsingum sem gefnar hafa verið út í dag segir að símboðarnir sem sprungu í gær hafi aldrei verið í Ungverjalandi.
Vitað er til þess að um 2.800 manns særðust í gær og þar af eru um þrjú hundruð í alvarlegri stöðu. Tólf eru sagðir látnir og þar af tvö börn.
Leiðtogar Hezbollah hafa sakað Ísraela um að bera ábyrgð á sprengingunum í gær og í dag skutu þeir tíu eldflaugum að Ísrael. Engan virðist hafa sakað í þeim árásum.
Reuters hefur eftir heimildarmönnum sínum að talstöðvanar hafi verið keyptar um svipað leyti og símboðarnir fyrir um fimm mánuðum síðan.
#BREAKING: Reports of #Hezbollah radios and walkie talkies exploding today. pic.twitter.com/HjupoWS98B
— Jason Brodsky (@JasonMBrodsky) September 18, 2024
Blaðmaður Axios segist hafa heimildir fyrir því að talstöðvarnar hafi verið hugsaðar sem neyðarbúnaður, ef aðrir samskiptamöguleikar Hezbollah gætu ekki verið notaðir. Óstaðfestar fregnir hafa einnig borist af því að tölvur hafi sprungið og fingrafaraskannar sem Hezbollah á að hafa notað.
Deilt hefur verið um það innan ríkisstjórnar Ísraels hvort gera ætti innrás inn í suðurhluta Líbanon og reka vígamenn Hezbollah þaðan og stöðva eldflaugaárásir samtakanna á norðanvert Ísrael.
Hér að neðan má sjá myndband frá jarðarför fjögurra Hezbollah-liða í Beirút í dag. Myndbandið er sagt sýna þegar ein talstöð springur í loft upp.
A #Hezbollah walkie talkie explodes at a funeral today in #Lebanon after yesterday’s exploding Hezbollah pagers. pic.twitter.com/b8TIfUUBKq
— Jason Brodsky (@JasonMBrodsky) September 18, 2024
Fréttin hefur verið uppfærð.