Málið má rekja til kvörtunar til Persónuverndar þar sem kvartandi taldi óeðlilegt að aðrir en læknar og heilbrigðisstarfsfólk sem viðkomandi leitaði sjálfur til hefðu aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum úr sjúkraskrá.
Samgöngustofa taldi nauðsynlegt fyrir trúnaðarlækni stofnunarinnar að geta flett upp upplýsingum í sjúkraskrá til að sinna eftirlitsskyldu sinni en Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir eftirlitsskyldur Samgöngustofu hefði skort skýrar lagaheimildir til að veita trúnaðarlækni hennar beinan aðgang að sjúkraskrám.
Aðgangur trúnaðarlæknisins byggði á samningi mili Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Samgöngustofu frá 2020 um aðgengi að sjúkraskrám.
Samkvæmt tilkynningu frá Heilsugæslunni var lokað fyrir aðgang Samgöngustofu strax í kjölfar úrskurðar Persónuverndar. Samningnum hefur auk þess verið rift.
„Það er ljóst að ekki var staðið rétt að gerð samnings við Samgöngustofu og við vinnslu annarra sambærilegra samninga hjá stofnuninni. Við tökum málið alvarlega og munum fara yfir alla samninga sem gerðir hafa verið um aðgengi að sjúkraskrá og tryggja að þeir séu í fullu samræmi við lög,“ er haft eftir Sigríði Dóru Magnúsdóttur, forstjóra Heilsugæslunnar í tilkynningunni.