Stefna Miltons breyttist líttilega og mestu hamfarirnar urðu talsvert sunnar á vesturströnd ríkisins en útlit var fyrir. Borgin Tampa slapp þannig betur en reiknað var með.
Meira en þrjár milljónir eru nú án rafmagns víðsvegar um ríkið. Borgin Sarasota fór einna verst úti, þaðan berast myndir af gríðarlegu tjóni, og þá eru íbúar borgarinnar St. Petersburg suður af Tampa án neysluvatns. Þá hefur sjaldan eða aldrei rignt jafnmikið í St. Petersburg og Tampa. Þar mældist rigningin yfir 45 sentímetrar, næstum hálfur metri. Ekki hafa verið gefnar nákvæmar tölur um mannfall en ljóst er að minnsta kosti tveir létust í Spanish lakes á austursröndinni.
Sluppu betur en á horfðist
Íslendingurinn Aníta Björk Káradóttir er í mánaðarlöngu fríi í Tampa ásamt fjölskyldu sinni. Hún ræddi stöðuna á svæðinu og undirbúninginn fyrir fellibylinn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Við náðum aftur tali af henni rétt fyrir hádegisfréttir, um klukkan hálf átta að staðartíma í Flórída.
Voruð þið hrædd þegar mestu lætin voru?
„Sko maður, var ekkert rólegur sitjandi inni. En þetta var, það voru mikil læti og svo voru ljósin mikið flöktandi og netið að detta út og sjónvarpið að detta út. Maður var ekkert alltof rólegur en maður var samt búinn að sjá, þegar nær dró, þá sá maður hvert hann var nákvæmlega að stefna og maður róaðist smá,“ segir Aníta.
Ertu eitthvað búin að fara út núna í morgun?
„Nei, og ég mun líklegast ekki fara út alveg strax. Ég mun örugglega mana mig út í að kíkja út, sjá hvernig þetta lítur allt út.“
Milton var þriðja stigs fellibylur þegar hann gekk á land en flokkast nú sem fyrsta stigs fellibylur. Auga Miltons er komið á haf út. Áfram veldur veðrið þó tjóni, til dæmis í Orlando, og varað er við miklum flóðum sem komið gætu í kjölfar óveðursins.