Þrátt fyrir að næstum allar konur fái boð um brjóstaskimun hér á landi er aðeins helmingur þeirra sem þiggur það, hlutfallið hefur lækkað um tíu prósent síðustu ár.
Vill að stórefla þátttökuna
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra vill stórefla þátttöku kvenna með því að lækka komugjald úr sex þúsund krónum í fimm hundruð kall.
„Æskilegt er að hlutfall kvenna sem mæti sé um 75 prósent og nú á gjaldið alla vega ekki að vera hindrun,“ segir Willum.

Mikilvægt að greina meinið snemma
Svanheiður Lóa Rafnsdóttir yfirlæknir á Brjóstamiðstöð segir að um tvö hundruð konur greinist á ári með brjóstakrabbamein. Þá látist um 50 árlega úr sjúkdómnum.
„Það er gríðarlega mikilvægt að greina meinið sem fyrst því þá aukast batahorfur verulega. Við greinum vikulega 4-5 konur en nýgengi brjóstakrabbameins fer hækkandi,“ segir hún.

Svanheiður býst við að margar konur taki nú við sér en mæting yngri kvenna og kvenna af erlendum uppruna hefur verið dræmari en annarra.
„Við gerum allt sem við getum til að taka á móti auknum fjölda kvenna,“ segir hún.
Ótrúlega mikilvægt
Alma Möllur landlæknir hvetur konur til að svara kallinu.
„Ég vil hvetja allar konur til að mæta í brjóstaskimun, það er ótrúlega mikilvægt,“ segir Alma.

Fréttamaður kannaði hversu lengi það tekur að fara í sjálfa skimunina og það tók ekki nema fimm mínútur. Fjárskortur eða tímaleysi ættu því ekki að vera nein afsökun fyrir því að mæta ekki í skimun.