Hagen hefur alla tíð neitað sök en aldrei hefur fundist tangur né tetur af eiginkonu hans. Í yfirlýsingu frá lögmönnum hans segir að ákvöðun saksóknara sé alger uppreist æru fyrir hann.
Á blaðamannafundi í morgun sagði lögreglan að rannsóknin hafi verið ein sú stærsta sem hún hefði unnið að á undanförnum árum. Teknar hafa verið um 700 vitnaskýrslur og farið yfir um sex þúsund klukkustundir af upptökum úr öryggismyndavélum. Þá bárust lögreglu um 26.000 ábendingar vegna málsins.
Niðurstaða lögreglunnar eftir allt þetta er að engar vísbendingar séu um að Tom Hagen hafi átt þátt í hvarfi eiginkonu sinnar, að sögn Vibeke Schøyen, yfirmanns ákærusviðs lögreglunnar.
Lögmenn Hagen hafa einnig boðað til fundar klukkan ellefu.
Anne-Elisabeth hvarf af heimili þeirra hjóna í úthverfi Oslóar 31. október árið 2018. Hagen var handtekinn og sakaður um að myrða hana eða eiga hlutdeild í morði í apríl 2020. Hann hélt því fram að hann hefði fundið hótunarbréf í húsinu þar sem hann var krafinn um lausnargjald sem hann ætti að greiða með rafmyntum.
Ríkissaksóknari sagði síðast í desember að líkur væri á að Anne-Elisabeth hefði verið myrt. Tveir aðrir hafa stöðu sakbornings í málinu en þeir neita báðir sök.
Fréttin hefur verið uppfærð.