Seint í gær var svo gerð önnur tilraun án árangurs. Milljónir manna eru því enn rafmagnslaus og hafa verið það í nærri þrjá daga.
Í frétt Reuters um málið er vísað í tilkynningu frá orkumálaráðherra landsins í samskiptaforritinu Telegram þar sem hann sagði verkefnið flókið en að það væri verið að vinna í að koma rafmagni aftur á. Það hefði orðið bilun í vestari hluta kerfisins og rafmagni slegið út aftur, þar með talið í höfuðborginni Havana.
Þá segir enn fremur í frétt Reuters að rafmagnsleysið komi á erfiðum tíma. Íbúar landsins búi nú þegar við töluverðan matar-, lyfja- og eldsneytisskort. Fréttamenn miðilsins hafi orðið vitni að tveimur mótmælafundum vegna rafmagnsleysisins. Annar hafi verið haldinn í Marianao og hinn í hverfi í Havana. Lítil internet umferð mælist frá landinu en vegna rafmagnsleysisins reynist fólki erfitt að hlaða tæki sín. Í tilkynningu frá Netblocks, sem halda utan um netnotkun í heiminum, kom fram að eyjan væri mestmegnis internetlaus.
Víðtækur eldsneytisskortur
Í fréttinni kemur fram að síðustu daga og vikur hafi yfirvöld reglulega þurft að senda starfsfólk stofnanna og kennara heim til að varðveita eldsneyti og orku. Rafmagnsleysi hefur þannig verið nokkuð reglulegt undanfarið og varað í jafnvel 10 til 20 klukkustundir í senn. Yfirvöld hafa kennt lélegum innviðum, skorti á eldsneyti og meiri eftirspurn um. Þá hafi fellibylurinn Milton einnig haft áhrif.
Erfitt hefur verið að fá eldsneyti til landsins á sama tíma og Venesúela, Rússland og Mexíkó hafa minnkað útflutning til Kúbu. Frá Venesúela kemur helmingi minna en áður sem hefur leitt til þess að yfirvöld hafa þurft að leita á dýrari markaði.
Þá kenna kúbversk yfirvöld einnig bandaríska viðskiptabanninu um auk viðskiptahafta sem voru sett á í stjórnartíð Donald Trump. Bandaríkin segjast ekki eiga neinn hlut að máli.