Frumvarpið var birt á vef Alþingis í gær. Samkvæmt láninu geta fyrirtæki og einstaklingar sótt um lán vegna atvinnurekstrar í Grindavík. Lánið getur numið allt að 49 milljónum króna. Lánið er samkvæmt frumvarpinu tryggt af ríkinu en sótt er um það í banka. Þá er tekið fram að vextir af láninu eigi að fylgja stýrivöxtum Seðlabankans.
Þá er sett skilyrði í frumvarpinu að búið hafi verið að stofna til atvinnurekstrar áður en bærinn var rýmdur þann 10. nóvember. Þá eru einnig sett ýmis skilyrði um tekjur og að ekki hafi verið greiddur út arður eða keypt hlutabréf. Þá er ekki hægt að sækja um sé einstaklingur í vanskilum. Nánar hér.
„Það var alltaf talað um að byrja á heimilunum og einstaklingunum. Ellefu mánuðum síðar er þetta svo kynnt sem lausnin fyrir fyrirtæki. Að bjóða fólkið að taka lán á kjörum dagsins í dag er í mínum huga til háborinnar skammar,“ segir Birgitta Rán og að hún hafi orðið innilega svekkt þegar hún sá þetta frumvarp.
Hún hefði frekar vilja sjá framlengingu þeirra stuðningsúrræða sem þegar eru í gildi á meðan hægt væri að finna einhverja betri lausn en þetta.
„Lántaka, að skuldsetja sig meira, það er ekki lausnin fyrir fyrirtæki eða einstaklinga frá Grindavík.“
Tvöföld snara
Hún segir sumar fjölskyldur eftir rýmingu fyrir tæpu ári hafa verið með tvöfalda snöru um hausinn. Önnur vegna hússins og hin vegna atvinnurekstursins. Húsin hafi svo verið keypt og þá losnað um aðra snúruna.
„Það er að koma ár en þá ertu samt enn með hina snöruna um hálsinn og þetta hefur gríðarleg áhrif.“
Hún segir margt gott hafa verið gert fyrir Grindvíkinga og hún sé mjög þakklát því.

„En þetta dugir ekki. Ég myndi vilja sjá alvöru aðgerðir fyrir fyrirtækin í Grindavík,“ segir hún og að í þeim gæti eitthvað annað falist en lán.
„Þetta á ekki eftir að nýtast eða skila sér til sárafárra. Ég efast um að margir vilji henda sér í lántöku sem ekki hafa getað sinnt starfinu sínu almennilega í ár.“
Birgitta segist hafa rætt málið við aðra bæjarfulltrúa Miðflokksins sem séu henni sammála um þetta.