Vonn er sögð stefna á að snúa aftur til keppni í Beaver Creek í Colorado um miðjan desember. Á meðan margir eru eflaust spenntir fyrir þeirri hugmynd að sjá þessa mögnuðu skíðakonu snúa aftur, eftir að hún neyddist til að hætta vegna meiðsla, eru ekki allir jafnhrifnir.
Þeirra á meðal er hinn 61 árs gamli Wasmeier, tvöfaldur Ólympíumeistari og heimsmeistari, en hann tjáði sig um málið á sjónvarpsstöðinni Sport 1.
„Að mínu mati er þetta bara einhver sýning. Þetta jaðrar við að vera hneyksli,“ sagði Wasmeier sem telur hreinlega hættulegt fyrir Vonn að ætla að bruna niður brekkurnar að nýju í baráttu við þær bestu í heimi, orðin 40 ára gömul.
„Hún er að gera einhverja sýningu úr þessu. Ég get ekki séð þetta fyrir mér öðruvísi,“ sagði Wasmeier.

Vonn vann á sínum ferli meðal annars þrenn Ólympíuverðlaun, átta verðlaun á heimsmeistaramótum og 82 heimsbikarmót. Wasmeier vill að hún njóti einfaldlega þess sem hún afrekaði á sínum ferli, í stað þess að snúa aftur.
„Hún er enn í hópi þeirra sem hafa náð lengst, svo hún ætti ekki að vera að standa í þessu. Það ætti að fagna henni fyrir það sem hún hefur afrekað. Ég myndi dauðskammast mín ef ég færi niður brekkuna og væri allt í einu tíu sekúndum á eftir fljótasta manni. Þá myndu bara allir hlæja að manni,“ sagði Wasmeier.