Ísraelsher hefur barist við Hezbollah við landamæri Ísrael og Líbanon í rúmt ár, frá því að samtökin hófu árásir á norðurhluta Ísrael 8. október 2023, til að sýna „samstöðu“ með Hamas.
Ísraelsmenn hafa síðan ráðist inn í Líbanon og staðið í hörðum aðgerðum gegn Hezbollah í suðurhluta landsins, til að freista þess að draga úr getu samtakanna til að ráðast gegn byggðum í norðurhluta Ísrael.
Fjöldi íbúa á svæðinu, beggja megin landamærana, hafa neyðst til að flýja heimili sín eftir að átökin brutust út.
Saar sagði stjórnvöld í Ísrael reiðubúin til að ræða vopnahlé, að því gefnu að liðsmenn Hezbollah hétu því að halda sig norðan Litani-ár og að komið yrði í veg fyrir endurvopnun þeirra.
Bandaríkjamenn hafa átt milligöngu um viðræður um vopnahlé og þá er annar ísraelskur ráðherra, Ron Dermer, sagður hafa ferðast til Rússlands í síðustu viku til að ræða möguleikann á því að Rússar tryggi að Hezbollah fái ekki vopn um Sýrland.
Najib Mikati, starfandi forsætisráðherra Líbanon, er einnig sagður hafa fundað með ýmsum leiðtogum Arabaríkja, meðal annars Abdullah II, konung Jórdaníu, og Sabah Al-Khalid Al Sabah, krónprins Kúvæt.
Mohammad Afif, talsmaður Hezbollah, sagði hins vegar á blaðamannafundi í gær að þrátt fyrir að þreifingar hefðu átt sér stað milli stjórnvalda í Washington, Moskvu, Tehran og víðar væru viðræður á frumstigi og engar ákveðnar tillögur á borðinu.
Þess ber þó að geta að framkvæmdastjóri Hezbollah, Naim Qassem, hefur sagt samtökin reiðubúin til viðræðna og að þau hafi horfið frá fyrri skilyrðum sínum um vopnahlé á Gasa.