Ísland vann 2-0 sigur á Svartfjallalandi í Þjóðadeild UEFA í gær. Orri Steinn Óskarsson og Ísak Bergmann Jóhannesson skoruðu mörkin og tryggðu Íslandi um leið úrslitaleik um áframhaldandi veru í B-deild þjóðadeildarinnar.
Í fremur tíðindalitlum fyrri hálfleik í gær átti sér hins vegar stað ótrúlegt atvik. Stefán Teitur Þórðarson var þá í baráttu við leikmenn Svartfellinga á miðjum vellinum. Stefán Teitur féll til jarðar og aukaspyrna var dæmd og virtist Stefán Teitur ansi þjáður.
Á endursýningum sást að Svartfellingurinn Marko Jankovic greip um punginn á Stefáni Teiti.
„Hann útskýrir fyrir þeim þýska [dómaranum] að Jankovic hafi hreinlega gripið um hreðjarnar á honum. Þetta er nú ekki löglegt,“ sagði Guðmundur Benediktsson í lýsingunni á atvikinu og sérfræðingurinn Kjartan Henry Finnbogason virtist finna til með Stefáni Teiti.
Í viðtali við mbl.is ræddi Stefán Teitur atvikið.
„Hann greip utan um eistun á mér, ég fatta ekki alveg hvað hann var að gera,“ sagði Stefán Teitur og bætti við að hann hefði haldið að atvik sem þetta ætti að þýða spjald.
Atvikið ótrúlega má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.