Listaverkið kallast „Comedian“ eða „Grínisti“ og er eftir Maruizio Cattelan, ítalskan listamann. Það var fyrst opinberað á sýningu í Flórída árið 2019 og vakti þá gífurlega athygli. Á einum tímapunkti tók annar listamaður sig til og át bananann.
Þrjár útgáfur af listaverkinu seldust þá á milli 120 og 150 þúsund dala, samkvæmt AP fréttaveitunni, en fjarlægja þurfti listaverkið af umræddri sýningu vegna þeirrar gífurlegu athygli sem það vakti.
Nú hefur Justin Sun, stofnandi TRON rafmyntakauphallarinnar, keypt listaverkið á uppboði hjá Sotheby‘s. Í rauninni keypti hann vottorð sem gerir honum kleift að líma banana á vegg og kallað það „Grínista“, þar sem ekki er um eitt sérstakt listaverk að ræða heldur huglægt listaverk.
AP segir uppboðið hafa farið af stað í átta hundruð þúsund dölum og upphæðin hafi hækkað gífurlega hratt.
„Þetta eru orð sem ég hélt ég myndi aldrei segja: Fimm milljónir dala fyrir banana,“ sagði Oliver Barker, uppboðsstjórnandinn á einum tímapunkti. Uppboðið endaði í 5,2 milljónum en við það bættist svo ein milljón dala sem fer til uppboðsfyrirtækisins.
Sun sendi í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem hann sagði „Grínistann“ ekki eingöngu listaverk, heldur menningarfyrirbæri sem brúi heima listarinnar, jarma (e. meme) og rafmynta.
Þá sagðist hann ætla að éta bananann á næstu dögum.
I’m thrilled to announce that I’ve bought the banana🍌 !!! @SpaceX @Sothebys I am Justin Sun, and I’m excited to share that I have successfully acquired Maurizio Cattelan’s iconic work, Comedian for $6.2 million. This is not just an artwork; it represents a cultural phenomenon… pic.twitter.com/lAj1RE6y0C
— H.E. Justin Sun 🍌 (@justinsuntron) November 21, 2024