„Það er verið að fylgjast með því sem er að gerast við Bláa lónið. Gengur vel að styrkja varnargarðana og við erum nokkuð viss um að það takist að verja Bláa lónið,“ segir Runólfur Þórhallsson, starfandi sviðsstjóri hjá Almannavörnum.
„Fréttirnar eru þær að það dregur jafnt og stöðugt úr þessu. Framrásin hlýtur að fara að róast og landslagið er þannig að nú ættu frekar að myndast hrauntjarnir.“
Hann segir orkuinnviði hafa haldið. Í morgun var greint frá því að hraun hefði náð Njarðvíkuræð, sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni, og að Svartsengislínu hefði slegið út, með þeim afleiðingum að rafmagn fór af Grindavík og orkuverinu í Svartsengi.
„Það er heitt og kalt vatn og rafmagn. Njarðvíkuræðin virðist halda. Það er búið að tryggja það að þetta sem gerðist með Svartsengislínuna hefur ekki áhrif á Grindavík,“ segir Runólfur. Orkuverið sé þó áfram keyrt á varaafli að hluta til.