Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var nefnilega með hljóðnema á sér í leiknum. FH-ingar hafa nú frumsýnt afraksturinn af því en fylgst var með Sigursteini inni í búningsklefa fyrir leik og á hliðarlínunni meðan á leik stóð.
Í innslaginu, sem má sjá í spilaranum hér fyrir neðan, má meðal annars sjá Sigurstein hvetja sína menn til dáða í klefanum fyrir verkefnið ærna gegn strákunum hans Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach.
„Ég var aðeins að skoða þetta. Fjórir af tíu leikjahæstu leikmönnum FH frá upphafi [í Evrópukeppni] sitja hérna inni í þessum klefa. Fjöldinn allur hefur spilað yfir tuttugu leiki. Með öðrum orðum, það er massa reynsla hérna í bland við massa greddu. Nýir menn að stíga sín fyrstu skref á þessu sviði. Við ætlum að nýta okkur þetta; reynslu og greddu,“ sagði Sigursteinn meðal annars.
FH-ingar létu þýska liðið hafa fyrir hlutunum en töpuðu á endanum með átta marka mun, 32-24.
FH tekur á móti Toulouse í lokaleik sínum í H-riðli Evrópudeildarinnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.