Í hugleiðingum veðurfræðings segir að frost verði almennt á bilinu þrjú til tólf stig. Undir kvöld verði vindur yfirleitt hægari og það herði á frosti, auk þess sem það stytti upp fyrir norðan.
„Yfirleitt fremur hægur vindur á morgun og skýjað með köflum, en norðaustan 10-18 m/s og dálítil snjókoma við suðausturströndina. Mjög kalt í veðri, en líkur eru á að frostið fari yfir 20 stig í innsveitum fyrir norðan.
Seinnipartinn bætir smám saman í vind, þykknar upp og dregur úr frosti, og annað kvöld verður farið að snjóa víða um land. Á Norðvestur- og Vesturlandi ætti þó að haldast úrkomulítið.
Á laugardag er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðaustanátt með snjókomu og skafrenningi á austurhelmingi landsins, þar eru talsverðar líkur á að færð spillist, einkum á fjallvegum. Á norðvestanverðu landinu verður úrkoman líklega éljakenndari og suðvestanlands ætti að hanga þurrt. Frost 0 til 7 stig.
Seint á laugardag fer að draga úr ofankomu, og á sunnudag er útlit fyrir mun rólegra veður. Herðir aftur á frosti,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Norðaustan og austan 3-10 m/s og bjart með köflum, en 10-18 og dálítil snjókoma við suðausturströndina. Frost 4 til 20 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Bætir smám saman í vind síðdegis, þykknar upp og dregur úr frosti. Fer að snjóa um kvöldið, en þurrt að kalla á Norðvestur- og Vesturlandi.
Á laugardag: Norðaustan 13-20, hvassast suðaustantil. Snjókoma á austurhelmingi landsins, og él um landið norðvestanvert, en yfirleitt þurrt suðvestanlands. Frost 0 til 8 stig. Fer að draga úr ofankomu undir kvöld.
Á sunnudag (fullveldisdagurinn): Minnkandi norðanátt, 3-10 seinnipartinn en 8-15 austantil. Víða él, en þurrt að mestu sunnan heiða. Herðir á frosti, 5 til 18 stig undir kvöld, kaldast inn til landsins.
Á mánudag: Suðaustlæg eða breytileg átt 3-10, stöku él og kalt í veðri. Bætir í vind um kvöldið og hlýnar með slyddu eða rigningu sunnanlands.
Á þriðjudag: Suðlæg átt og rigning, slydda eða snjókoma með köflum. Hiti víða 0 til 5 stig.
Á miðvikudag: Suðaustlæg átt og rigning eða slydda, einkum sunnanlands. Hlýnar í veðri.