Innlent

Á­stand á Reykja­nes­brautinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum varar við erfiðri færð og hálku.
Lögreglan á Suðurnesjum varar við erfiðri færð og hálku.

Viðbragðsaðilar eru á fjórum vettvöngum á Reykjanesbraut þar sem árekstrar eða óhöpp hafa orðið. Ekki er vitað um slys á fólki. 

Lögreglan á Suðurnesjum vekur athygli á erfiðri færð á Reykjanesbrautinni auk þess sem mikil hálka er á veginum.

„Færðin er farin að spillast og mikil hálka á brautinni. Í augnablikinu eru viðbragðsaðilar að vinna á 4 vettvöngum á Reykjanesbraut. Ekki er vitað um slys á fólki þar sem þetta er bara að gerast í þessum töluðu orðum. Endilega farið varlega og þeir sem enn eru á sumardekkjum eiga ekki erindi á Reykjanesbrautina eins og er,“ segir í tilkynningu.

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir með suðaustan hríðarveðri fyrir sunnan, suðvestan, vestan og suðaustanvert landið með versnandi akstursskilyrðum. Hellisheiði, Þrengsli, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og Krýsuvíkurvegur hafa verið settir á óvissustig vegna veðurs til klukkan 23 í kvöld og gæti þurft að loka fyrir umferð með stuttum fyrirvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×