Sport

Ólympíumeistari brotinn á mörgum stöðum eftir að hafa klesst á bílhurð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Remco Evenepoel brotnaði á mörgum stöðum í árekstrinum við póstbílinn.
Remco Evenepoel brotnaði á mörgum stöðum í árekstrinum við póstbílinn. Getty/Sara Cavallini

Belgíski Ólympíumeistarinn Remco Evenepoel átti ekki góðan æfingadag í gær og það er ljóst að frábært ár hans endar afar illa.

Hjólreiðakappinn varð fyrir því óláni að klessa á póstbíl í gær þar sem hann var að hjóla í bænum Oetingen.

Belgíska blaðið Het Laatste Nieuws segir frá óförum Ólympíumeistarans og að hann hafi í framhaldinu verið fluttur á sjúkrahús.

Patrick, faðir Evenepoel, staðfesti að sonur sinn hafi verið fluttur á sjúkrahúsið. „Hann fór á Erasmus sjúkrahúsið í Anderlecht. Við verðum síðan að sjá hvernig þetta lítur út. Ég er á leiðinni á sjúkrahúsið sjálfur,“ sagði Patrick við Het Laatste Nieuws.

Seinna kom fréttatilkynning um að Evenepoel væri brotinn á mörgum stöðum. Hann rifbeinsbrotnaði, braut annað herðablaðið og hægri handlegg. Hann verður því lengi frá keppni.

Het Laatste Nieuws sýndi myndir frá slysstaðnum. Þar situr Remco Evenepoel með teppi vafið um sig. Hjól hans liggur á jörðinni og er augljóslega beyglað.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins þá gat hjólreiðakappinn ekki stoppað sig þegar póstmaðurinn opnaði skyndilega hurðina á bílnum sínum.

Þetta er annars búið að vera frábært ár hjá hinum 24 ára gamla Remco Evenepoel. Hann varð heimsmeistari í tímatöku í september og vann tvenn gullverðlaun á Ólympíuleikunum í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×