Lögreglan í Fall River hefur lýst atvikinu á þann hátt að maðurinn hafi verið „fylltur anda“ jólasveinsins.
Í frétt NBC segir að rannsóknarlögreglumenn hafi verið að framfylgja leitarheimild þegar hinn 33 ára gamli Robert Langlais flúði undan þeim. Hann fór upp á þak nærliggjandi hús og reyndi að komast undan með að stökkva ofan í reykháf.
Þar sat hann þó pikkfastur.
Þegar lögregluþjónarnir kíktu fyrst ofan í skorsteininn virðist þeim hafa brugðið nokkuð.
„Þú ert fáviti,“ var það fyrsta sem annar þeirra sagði.
Hér að neðan má sjá myndband sem unnið er úr upptökum úr vestismyndavélum lögregluþjóna.
Kona var einnig handtekinn á vettvangi og án sambærilegra „fíflaláta“ eins og lögreglan orðar það en sá þriðji komst undan með því að stökkva ekki ofan í skorstein heldur af húsþaki ofan á bíl og hlaupa á brott. Bæði Langlais og konan hafa verið ákærð fyrir vörslu fíkniefna og önnur brot.