Sex Ástralir og einn Bandaríkjamaður voru lagðir inn á sjúkrahús eftir að þeir veiktust á Warwick-hótelinu, fimm stjörnu gististað við bæinn Sigatoka, á laugardag. Ferðamennirnir köstuðu upp og þjáðust af ógleði og taugakerfiseinkennum, að sögn heilbrigðisyfirvalda á eyjunni.
Fjölmiðlar sögðu frá því að grunur léki á því að fólkið hefði orðið fyrir eitrun af völdum mengaðs áfengis. Sex ferðamenn létu lífi eftir að þeir drukku áfenga drykki sem voru mengaðir með tréspíra í Laos í síðasta mánuði.
Nú fullyrðir Viliame R. Gavoka, ferðamálaráðherra Fídji, að engin merki um tréspíra eða ólögleg efni hafi fundist í áfenginu eða hráefnum sem voru notuð í hanastélin.
„Niðurstaðan að það séu engar vísbendingar um áfengiseitrun eru frábærar fréttir fyrir Fídji, sérstaklega fyrir lífsnauðsynlegan ferðamannaiðnaðinn okkar,“ sagði Gavoka, að sögn AP-fréttastofunnar.
Hann hvetur erlend ríki til þess að draga til baka viðvaranir til ríkisborgara sinna um hættuna sem fylgi áfengjum drykkjum á Fídji.
Mengað áfengi er vandamál á fjölda ferðamannastaða þar sem takmarkaðar reglur og eftirlit tíðkast. Þar er áfengi ýmist drýgt eða skipt alfarið út fyrir heimabruggaðan spíra sem getur reynst lífshættulegur fólki.