Gigliotti, sem er Bandaríkjamaður með ungverskt vegabréf, var látinn fara frá Grindavík fyrr í mánuðinum. Hann var ekki lengi án félags því KR hefur samið við hann.
Gigliotti spilaði stórvel með Þór Ak. í 1. deildinni á síðasta tímabili og samdi í kjölfarið við Grindavík. Í níu leikjum fyrir þá gulu í Bónus deildinni skoraði hann 10,6 stig og tók 6,1 frákast að meðaltali.
KR missti Dani Koljanin yfir í ÍR á dögunum en ætla má að Gigliotti eigi að fylla hans skarð.
„Ég er mjög ánægður að fá Jason inn í hópinn okkar. Hann kemur með hæð og styrk sem mun hjálpa okkur í baráttunni sem framundan er,“ segir Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, í tilkynningu frá félaginu.
KR mætir einmitt Grindavík annað kvöld, í síðasta leik sínum á árinu 2024. KR-ingar eru í 7. sæti Bónus deildarinnar með tíu stig eftir tíu leiki.