Þórir stýrði Noregi í síðasta sinn á sunnudag þegar Noregur vann Danmörku í úrslitaleik EM. Þjálfaratíð hans hefur verið ein óslitin sigurganga frá árinu 2009 en undir stjórn Þóris hefur Noregur unnið EM sex sinnum, Ólympíuleikana tvisvar, síðast í sumar, og heimsmeistaramótið þrisvar. Þá eru ótalin öll silfur og bronsverðlaun liðsins.
Hann segir nú skilið við norska liðið sem hann hefur starfað með frá árinu 2001. Hann segir þennan titil vera sér þýðingarmikinn.
„Já, verður maður ekki að segja það. Það lifir hvert mót sínu lífi og þetta hefur verið mismunandi þessir titlar sem maður hefur unnið og hver hefur sinn sjarma. Það er ekkert hægt að neita því að það var alveg frábært að geta endað á að vinna og fara í gegnum Evrópumótið án þess að tapa leik,“ segir Þórir.

Þórir er nú kominn heim til Noregs í afslöppun eftir keyrslu síðustu vikna. Jólin taka við og ákvarðanir um framtíðina bíða nýs árs. Tilboðin láta þó ekki á sér standa.
„Ég er búinn að fresta öllum framtíðanplönum þangað til eftir áramót. Ég ætla að skoða þetta í rólegheitum í janúar,“ segir Þórir.
Fengið fjölda tilboða
En hefurðu fengið tilboð?
„Já, já. Ég hef fengið tilboð en ég hef bara sagt að ég sé ekki að fara inn í neitt á þessu tímabili. Ef það verður eitthvað á næsta ári, næsta tímabili, þá er það eitthvað sem þarf að skoða vel. Það þarf að vera eitthvað sem passar,“ segir Þórir.
Eitt er víst. Að Þórir er ekki á heimleið.
„Ég er giftur norskri konu sem sagði við mig snemma, þegar við kynntumst, að hún myndi aldrei flytja til Íslands. Ég hef nú aðeins reynt en ég gafst upp fyrir mörgum árum síðan,“ segir Þórir.
Fréttina má sjá í spilaranum að ofan.