Flóðið féll um tuttugu og fimm mínútur yfir sex að morgni og urðu 25 hús fyrir flóðinu, þar af átján íbúðarhús. Fjórtán létu lífið í hamförunum og tíu til viðbótar slösuðust.
Minningastund vegna atburðanna fer fram í Súðavíkurkirkju síðdegis í dag en athöfnin hefst á því að gengið verður frá félagsheimili bæjarins klukkan 16:40 upp að minnisvarða sem reistur var um atburðina. Að göngu lokinni hefst minningastund í kirkjunni.
Í Reykjavík hefur síðan verið boðað til helgistundar í Guðríðarkirkju klukkan 20. Sr. Leifur Ragnar Jónsson og sr. María Rut Baldursdóttir munu þar þjóna við athöfnina og Ómar Már Jónsson fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík flytur ávarp. Þangað eru allir hjartanlega velkomnir að því er segir í tilkynningu.