Í fréttum Stöðvar 2 var farið á útboðsþing Samtaka iðnaðarins í dag. Þar kynntu fulltrúar opinberra aðila áform sín um framkvæmdir ársins. Ef þau rætast öll stefnir í að verk fyrir 264 milljarða króna verði boðin út í ár, sem yrði tvöföldun milli ára.
Stærstu útboðin eru áformuð hjá Landsvirkjun en þar er óvissan mest enda tvísýnt um Hvammsvirkjun.
Eyjólfur Ármannsson, nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, boðar kraftmiklar framkvæmdir en þó ekki strax.

„Fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar er að ná niður verðbólgunni, ná niður vaxtastiginu. Svo getum við byrjað,“ segir ráðherrann, sem hyggst kynna nýja samgönguáætlun í haust. Hann vill þó ekki gefa upp neina forgangsröðun núna.
„Þú verður bara að vera í þinginu þegar ég mæli fyrir samgönguáætlun. Svo einfalt er það.“
Síðasta Alþingi var áður búið að setja Vestfirði í forgang á þessu ári.
„Aðalatriðið er að klára Dynjandisheiði, klára Gufudalssveitina. Þetta eru stórhættulegir vegir og ég hef keyrt þetta margoft sjálfur, meira að segja í myrkri.
En það er langur listi af framkvæmdum sem þarf að fara í,“ segir Eyjólfur.

Á útboðsþinginu kynnti fulltrúi Vegagerðarinnar að tvær brýr yfir Gufufjörð og Djúpafjörð yrðu boðnar út í marsmánuði en stærsta brúin yfir Djúpafjörð yrði boðin út í haust.
Þá á endurbygging norðausturvegar um Brekknaheiði að hefjast í ár en breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Vallár og Hvalfjarðarganga frestast enn.
Ráðherrann segist einnig ætla að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð. En verða Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar áfram í forgangi?

„Það mun bara koma í ljós í haust. Ég mun mæla fyrir nýrri samgönguáætlun í haust.
Við erum að vinna í endurskoðun núna. Ég er óbundinn af fyrri áætlun. Þetta er endurskoðun á áætluninni og þá munum við fara í þá vinnu.“
Og segir einnig opið að velja annan jarðgangakost á Austfjörðum.
„Það er allt uppi á borðinu. Allt uppi á borðinu hvað þetta varðar.
Ég hef heyrt þessa umræðu. Það eru mikilvæg jarðgöng fyrir austan. Líka fyrir vestan og norðan.
Þannig að þetta á bara allt eftir að koma í ljós hver forgangsröðunin verður. Ég veit að það er stóra málið,“ segir ráðherra samgöngumála í viðtali sem sjá má hér: