Fótbolti

Sér eftir sinni hegðun og ætlar að vera á­fram hjá Ajax

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jordan Henderson mátti þola mikið aðkast á samfélagsmiðlum þegar stuðningsmenn Ajax héldu að hann væri að yfirgefa þá. 
Jordan Henderson mátti þola mikið aðkast á samfélagsmiðlum þegar stuðningsmenn Ajax héldu að hann væri að yfirgefa þá.  Jeroen van den Berg/Soccrates/Getty Images

Jordan Henderson virðist ekki vera á förum frá Ajax. Hann er nú sagður sjá eftir því að hafa viljað yfirgefa félagið og fara til Mónakó.

Málið hefur verið hið furðulegasta. De Telegraaf greindi frá því fimmtudag að Henderson hafi krafist þess að fá ókeypis félagaskipti til AS Monaco samþykkt.

Hann spilaði svo leik með liðinu í Sambandsdeildinni síðar um kvöldið, en bar ekki fyrirliðabandið eins og hann gerir vanalega, þrátt fyrir að vallarþulur hafi kynnt hann inn sem fyrirliða.

„Ákvörðun“ Henderson féll ekki vel í kramið hjá stuðningsmönnum Ajax, sem hrúguðust á samfélagsmiðla og sökuðu Henderson um græðgi, hann væri að flýja í annað skattaskjól. Henderson fór frá Liverpool til Sádi-Arabíu sumarið 2023 en gekk til liðs við Ajax aðeins sex mánuðum síðar.

Nú greinir De Telegraaf hins vegar frá því að Henderson sé hættur við, honum hafi snúist hugur og hann „sjái innilega eftir sinni hegðun.“ Er hann sagður hafa greint framkvæmdastjóra félagsins frá því að hann vilji vera áfram og vinna bót á sínum málum.

Félagaskiptaglugginn lokar ekki fyrr en á mánudag svo enn er tími fyrir Henderson til að taka endanlega ákvörðun, en að svo stöddu virðist hann ekki vera á förum frá Ajax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×