Kolstad vann fimm marka útisigur á Bækkelaget, 29-24, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 18-10.
Fjórir íslenskir leikmenn skoruðu fyrir Kolstad liðið í þessum leik í kvöld.
Sigvaldi Björn Guðjónsson og Benedikt Gunnar Óskarsson skoruðu báðir þrjú mörk úr fjórum skotum. Arnór Snær Óskarsson skoraði tvö mörk úr fjórum skotum og Sveinn Jóhannsson nýtti sitt eina skot.
Benedikt Gunnar var stoðsendingahæstur hjá Kolstad með þrjár slíkar og Arnór bróðir hans gaf tvær. Benedikt kom að sex mörkum sem var mikilvægt þar sem að Sander Sagosen gat ekki spilað með liðinu vegna meiðsla.
Kolstad tók með þessu toppsæti deildarinnar af Elverum en Elverum á leik inni annað kvöld. Kolstad hefur unnið sextán af átján deildarleikjum sínum á þessu tímabili.